Enski boltinn

Markalaust á Villa Park

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Þrír góðir - Rafa Benitez, Martin O'Neill og Gareth Barry.
Þrír góðir - Rafa Benitez, Martin O'Neill og Gareth Barry. Nordic Photos / Getty Images
Aston Villa og Liverpool gerðu í dag markalaust jafnatefli í lokaleik dagsins í ensku úrvalsdeildinni.

Leikurinn var heldur tilþrifalítill en Liverpool missti þar með af tækifæri til að komast eitt á topp ensku úrvalsdeildarinnar.

Martin O'Neill, stjóri Aston Villa, gerði sex breytingar á liði sínu frá leiknum gegn FH á fimmtudaginn - eins og búist var við. Gareth Barry var vitanlega í byrjunarliðinu gegn Liverpool sem hann var svo oft orðaður við í sumar.

Javier Mascherano og Lucas Leiva voru í byrjunarliði Liverpool í fyrsta sinn eftir Ólympíuleikana en Steven Gerrard var frá vegna meiðsla. Þá var Andrea Dossena í liðinu í stað Fabio Aurelio.

Heimamenn byrjuðu ef til vill örlítið betur í leiknum sem var annars afar tíðindalítill í fyrri hálfleik. John Carew fékk þó gott færi seint í hálfleiknum er hann komst einn í gegnum vörn Liverpool en lét Pepe Reina verja frá sér.

Liverpool varð þó fyrir áfalli í fyrri hálfleik er Fernando Torres fór meiddur af velli og ekki ljóst hvort að um langvarandi meiðsli séu að ræða.

Bæði lið fengu sín hálffæri í upphafi síðari hálfleiks en annars gekk liðunum illa að skapa sér einhver almennileg færi.

Robbie Keane komst þó einn í gegnum vörn Villa eftir sendingu Mascherano en var of lengi að athafna sig og var stöðvaður af Nigel Reo-Coker. Rafa Benitez og Keane vildu vítaspyrnu en fengu ekki.

Fleiri urðu færin ekki og Liverpool er nú með sjö stig á toppi deildarinnar, rétt eins og Chelsea. Aston Villa er með fjögur stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×