Viðskipti innlent

Rauður dagur fyrir Atlantic Petroleum

Wilhelm Petersen, forstjóri Atlantic Petroleum.
Wilhelm Petersen, forstjóri Atlantic Petroleum. Mynd/Valli

Gengi hlutabréfa í færeyska olíuleitarfélaginu Atlantic Petroleum hefur fallið um rúm 4,6 prósent frá því viðskipti í Kauphöllinni hófust fyrir um hálftíma. Félagið er eitt þeirra sem danskur blaðamaður er sakaður um að hafa skrifað jákvæða greiningu um á sama tíma og hann keypti hluti í félaginu.

Atlantic Petroleum er skráð bæði í Kauphöllina hér og í Kaupmannahöfn.

Félagið, sem hefur aldrei skilað hagnaði, var skráð í Kauphöll Íslands um mitt ár 2005 og stóð þá í tæpum 400 krónum á hlut. Það fór hæst í rúmar 2.400 danskar krónur á hlut í nóvember í fyrra. Það stendur nú í 1.606 krónum.

Gengi hlutabréfa hefur almennt lækkað lítillega í dag en það er í samræmi við þróunina á alþjóðlegum hlutabréfamörkuðum.

Þá er næstmesta lækkunin á gengi bréfa í Century Aluminum, sem hefur farið niður um 3,1 prósent. Teymi hefur lækkað um 1,48 prósent, Bakkavör um 0,56 prósent og Exista um 0,49 prósent.

Á sama tíma hefur gengi bréfa í Kaupþingi hækkað um 0,38 prósent, Landsbankinn um 0,19 prósent og Alfesca um 0,15 prósent.

Úrvalsvísitalan hefur lækkað um 0,13 prósent og stendur vísitalan í 4.878 stigum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×