Tónlist

Árituðu ólöglegar plötur

Hljómsveitin Mezzoforte, sem hefur verið starfandi í 31 ár, er nýkomin heim frá Hvíta-Rússlandi.
Hljómsveitin Mezzoforte, sem hefur verið starfandi í 31 ár, er nýkomin heim frá Hvíta-Rússlandi.
Hljómsveitin Mezzoforte er nýkomin heim frá Minsk í Hvíta-Rússlandi þar sem hún spilaði í fyrsta sinn á ferli sínum. Tónleikahöllin í borginni tekur tvö þúsund manns í sæti og var fullt út úr dyrum.

„Þetta var alveg frábært. Þetta er nýjasta landið í safnið hjá okkur. Þau hafa verið að bætast við, austantjaldslöndin, eitt af öðru sem við komumst aldrei til í gamla daga vegna járntjaldsins," segir Eyþór Gunnarsson, meðlimur Mezzoforte. „Það voru rosafínar viðtökur sem við fengum. Við erum alltaf svolítið hissa að koma til nýrra landa og átta okkur á því hvað þetta hefur farið víða."

Að sögn Eyþórs biðu aðdáendur Mezzoforte í löngum biðröðum eftir tónleikana til að fá eiginhandaráritanir hjá þeim. Margir voru með ólöglegar bootleg-útgáfur af plötum sveitarinnar, sem þeir árituðu engu að síður. „Fólkið er ónæmt fyrir þessu og finnst þetta bara eðlilegt. Það kemur bara með bootleg-plöturnar og finnst það eðlilegt."

Tónleikarnir í Hvíta-Rússlandi voru þeir síðustu í tónleikaferð Mezzoforte til að kynna nýjan DVD-mynddisk sem var tekinn upp á afmælistónleikum í Borgarleikhúsinu í fyrra. Þar lék tíu manna viðhafnarútgáfa af sveitinni tuttugu lög á tveggja tíma tónleikum.

Næstu tónleikar Mezzoforte erlendis eru fyrirhugaðir í Þýskalandi í mars á næsta ári og þangað til fá þeir félagar góðan tíma til að hlaða batteríin. - fb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×