Innlent

Jón Gerald: Þarf að endurskoða réttarkerfið út frá þessum dómi

Jón Gerald Sullenberger
Jón Gerald Sullenberger

Jón Gerald Sullenberger var ómyrkur í máli gagnvart íslensku réttarkerfi þegar Vísir hafði samband við hann eftir að dómur í Baugsmálinu var kveðinn upp í Hæstarétti í dag. Þriggja mánaða skilorðsbundin dómur yfir Jóni var staðfestur.

„Ég er að sjálfsögðu ósáttur með niðurstöðu og vinnubrögð Hæstaréttar. Ég tel að þessi dómur sýni að það þurfi að endurskoða íslenskt réttarkerfi og vinnubrögð dómara," segir Jón Gerald.

Brynjar Níelsson, lögmaður Jóns Geralds, sagði í samtali við Vísi í dag að máli Jóns Geralds yrði skotið til Mannréttindadómstólsins í Strasbourg og staðfesti Jón Gerald það. „Ég er ekki hættur enda ætlum við að láta reyna . Við förum með þetta til Strasbourgar."

Jón Gerald lýsir furðu sinni á því að hæstaréttardómarinn Garðar Gíslason, sem var dómsformaður í Baugsmálinu, hafi ekki lýst sig vanhæfan frá byrjun. „Garðar er fyrrverandi sambýlismaður móður Stefáns Hilmarssonar, fyrrverandi endurskoðanda Baugs og núverandi fjármálastjóra Baugs, og fósturfaðir hans í mörg ár. Er eðlilegt að maður með slík tengsl skuli telja sér stætt að sitja sem dómari í máli af þessari stærðargráðu," spyr Jón Gerald og bætir við að hann vilji benda Íslendingum að lesa baugsmalid.is og mynda sér sjálft skoðun á málinu. „Þá mun fólk sjá hvað er rangt og hvað er rétt," segir Jón Gerald.


Tengdar fréttir

Jón Gerald á leið til Strassbourgar

Brynjar Níelsson lögmaður Jóns Geralds Sullenberger var rétt búinn að kíkja á niðurstöðu Hæstaréttar þegar Vísir náði af honum tali fyrir stundu. Hann segir að næst á dagskrá sé að fara með málið til Strassbourgar.

Fjallið tók jóðsótt og það fæddist mús

Jakob Möller, verjandi Tryggva Jónssonar í Baugsmálinu, segist ósáttur við niðurstöðuna í málinu er varðar hans umbjóðanda, en Hæstiréttur staðfestir 12 mánaða skilorðsbundið fangelsi yfir honum. Það segir Jakob of þungan dóm miðað við eðli málsins. Að öðru leyti hafi lítið orðið úr málinu. „Fjallið tók jóðsótt og það fæddist mús,“ sagði Jakob við fréttamenn eftir að dómur féll og vísaði til þess hve lítið hafi komið út úr einu stærsta dómsmáli Íslandssögunnar.

Gestur: Ánægður að málinu er lokið

Gestur Jónsson lögmaður Jóns Ásgeirs Jóhannessonar sagðist í samtali við Vísi vera ánægður með að nú sé loksins búið að leiða Baugsmálið til lykta. ,,Auðvitað hefði maður kosið að Jón hefði verið sýknaður en miðað við það hvernig var lagt af stað í þessu máli þá er ekki annað hægt en að sætta sig við þessi málalok."

Vonandi líf eftir Baugsmálið

Sigurður Tómas Magnússon, settur saksóknari í Baugsmálinu, vildi lítið tjá sig um lyktir Baugsmálsins þegar hann var spurður út í það á göngum Hæstaréttar. Hann sagðist vilja fá tíma til að fara yfir dóminn áður en hann tjáði sig um hann efnislega. Aðspurður hvort líf væri eftir Baugsmálið svaraði hann á þá leið að það hafi sannarlega verið líf á meðan á því stóð, og að vonandi væri líf að því loknu.

Baugsmálið frá upphafi til enda

Hinu svokallaða Baugsmáli, sem verið hefur í kerfinu í hátt á sjötta ár, lauk með dómi Hæstaréttar í dag. Þar voru dómar héraðsdóms yfir Jóni Ásgeiri Jóhannessyn, stjórnarformanni Baugs, Tryggva Jónssonar, fyrrverandi aðstoðarforstjóra, og Jóni Gerald Sullenberger, fyrrverandi viðskiptafélaga Baugsmanna, staðfestir.

Jóhannes segir Jón Ásgeir hafa tekið dómnum illa

Jóhannes Jónsson kvaðst vonast til þess að Björn Bjarnason dómsmálaráðherra muni einn daginn gefa út af hverju honum væri ,,svona illa við okkur og hvað við höfum gert honum." Hann segist hafa skorað áður á Björn og Harald Johannessen ríkislögreglustjóra að segja af sér og hann væri enn þeirra skoðunar. Sonur hans tók dómnum illa.

Hæstiréttur staðfestir dóm héraðsdóms í Baugsmáli

Hæstiréttur hefur fellt dóm í Baugsmálinu svokallaða og hann staðfestir dóm héraðsdóms. Þriggja mánaða skilorðsbundinn dómur yfir Jóni Ásgeiri Jóhannessyni og Jóni Gerald Sullenberger er staðfestur og sömuleiðis tólf mánaða dómur yfir Tryggva Jónssyni. Ríkissjóður skal greiða 20 milljónir í málskostnað fyrir Jón Ásgeir Jóhannesson, 15 milljónir fyrir Tryggva Jónsson og sjö milljónir fyrir Jón Gerald Sullenberger.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×