Menning

Fígúra lifði í 500 daga

Guðjón Rúnar Emilsson, eigandi Fígúru, hefur tekið ástfóstri við vegginn góða og býður upp á fatnað með áprentuðum fígúrum af honum. Hann lokar í dag.fréttablaðið/gva
Guðjón Rúnar Emilsson, eigandi Fígúru, hefur tekið ástfóstri við vegginn góða og býður upp á fatnað með áprentuðum fígúrum af honum. Hann lokar í dag.fréttablaðið/gva

Verslunin Fígúra fagnar 500 daga afmæli sínu með rýmingarsölu í dag, en dagurinn er sá síðasti sem verslunin verður opin. „Eftir það verðum við eingöngu á myspace á netinu," útskýrir Guðjón Rúnar Emilsson, eigandi verslunarinnar. Í stað Fígúru opnar ný búð í húsnæðinu, þar sem Karítas Pálsdóttir mun selja hönnun sína og annarra, en hún á einmitt heiðurinn að litríkum vegg Fígúru. „Hún verður með sína eigin hönnun, húsgögn og skart úr leir til dæmis og kærastinn hennar og vinkona verða með í þessu," útskýrir Guðjón, sem telur líklegt að einhver af merkjunum sem Fígúra hefur verið með fái að fylgja Karítas yfir í nýju verslunina.

Guðjón segir rekstur búðarinnar ganga ágætlega sem stendur, en lokun Skólavörðustígsins fyrr á árinu hafi sett töluvert strik í reikninginn. „Þetta er líka erfiður rekstur. Ég stend vaktina í búðinni allan daginn, prenta á föt og panta inn. Þetta tekur allt mikinn tíma," segir Guðjón sem vonast því til að geta einbeitt sér frekar að eigin hönnun eftir þessi kaflaskil. „Ég hef verið að prenta á föt frá merkinu American Apparel, sem eru gæðavörur og mun halda áfram að bjóða upp á þau, bæði á myspace-síðunni og svo fæ ég væntanlega smá horn í nýju búðinni. Fólk mun líka geta pantað á netinu og sótt vörurnar í búðina," útskýrir hann. Á meðal þess sem hann býður upp á eru bolir og fatnaður með fígúrum af veggnum góða. „Mér þykir svo vænt um þennan vegg að ég hef verið að reyna að bjarga honum svona," segir hann og hlær við.

Á þessum síðasta degi Fígúru er verslunin opin frá 12 til 19, og Guðjón lofar góðu verði. „Við erum ekkert að hugsa um fall krónunnar, við ætlum að hafa gamla góða gengið og gott betur en það," segir hann og hlær við.

Fígúra er til húsa að Skólavörðustíg 22, en síðuna má skoða á myspace.com/figurastore. - sun






Fleiri fréttir

Sjá meira


×