Viðskipti erlent

Tilboð í JJB Sports sagt vera í burðarliðnum

JD Sports Fashion hefur gefið í skyn að tilboð í JJB Sports sé í burðarliðnum. Exista á stóran hlut í JJB Sports en verð á hlutabréfum í félaginu hafa hrapað frá því á síðasta ári er hluturinn var keyptur.

JD er helsti keppinautur JJB Sports í íþróttavöru- og fatnaðargeiranum á Bretlandseyjum. JD tilkynnti í vikunni að það hefði fest kaup á rúmlega 10% hlut í JJB Sports fyrir 8,1 milljón punda. Þetta er talið merki um áhuga JD að gera yfirtökutilboð í JJB Sports að því er segir í Timesonline.

JJB Sports á þegar í samningaviðræðum um sölu á 50 líkamsræktarstöðvum sínum til Dave Whelan sem er eigandi Wigan Athletic.

Exista keypti ásamt Chris Ronnie, núverandi forstjóra, 29% hlut í JJB Sport í júní á síðasta ári á 190 milljónir punda eða um 24 milljarða króna á gengi þess tíma. Gengi bréfa í fyrirtækinu hefur fallið um 81% síðan þá.

Lýður Guðmundsson stjórnarformaður Exista hefur sagt að hluturinn í JJB Sport hafi verið keyptur á alltof háu verði. Þeir greiddu 12 milljarða kr. fyrir hlutinn en fengu samt ekki mann í stjórn félagsins. Hluturinn hefur hingað til verið talinn nær verðlaus.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×