Íslenski boltinn

Sverrir tekur við Fylki

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Sverrir Sverisson lék með Fylki á árum áður.
Sverrir Sverisson lék með Fylki á árum áður.

Sverrir Sverrisson mun stýra Fylki út leiktíðina en þetta staðfesti hann í samtali við Vísi nú rétt í þessu.

Sverrir tekur við af Leifi Garðarssyni sem var sagt upp störfum sem þjálfari Fylkis í gær. Fylkir tapaði fyrir KR í fyrrakvöld, 2-0, og mætir Fjölni í undanúrslitum bikarkeppninnar á sunnudaginn.

„Mér líst mjög vel á verkefnið sem er framundan. Þetta verður spennandi og krefjandi en við erum bara að hugsa um að klára tímabilið eins vel og hægt er," sagði Sverrir.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem hann tekur við liðinu en hann stýrði Fylki í síðustu tveimur leikjunum leiktíðina 2005 eftir að Þorláki Árnasyni var sagt upp störfum. Síðar um haustið var svo Leifur ráðinn.

„Ég hef fylgst vel með öllum heimaleikjum Fylkis í sumar enda bý ég rétt hjá vellinum. Ég er enn harður Fylkismaður en það allra mikilvægasta nú er að tryggja liðinu áframhaldandi sæti í efstu deild. Það er fyrir öllu."

Sverrir lék með Fylki frá árunum 2000 til 2003 og þekkir vel til í herbúðum liðsins. Hann er bróðir Eyjólfs Sverrissonar fyrrum landsliðsþjálfara en hann segir að ekki hafi komið til greina nú að fá hann með sér í starfið.

Hann sagði að hann myndi gera breytingar á Fylkisliðinu fyrir næsta leik.

„Það verða breytingar, það er alveg öruggt. Hversu miklar er ekki ljóst en við munum taka einn leik fyrir í einu. Ég fæ reyndar ekki langan tíma til að undirbúa liðið fyrir næsta leik en eftir hann fáum við langt frá og þá mun okkur gefast tækifæri til að þjappa okkur saman."












Fleiri fréttir

Sjá meira


×