Viðskipti innlent

Úrvalsvísitalan hrundi í dag

Lárus Welding, forstjóri Glitnis, og Davíð Oddsson, seðlabankastjóri, þegar tilkynnt var um kaup ríkisins í Glitni í gær.
Lárus Welding, forstjóri Glitnis, og Davíð Oddsson, seðlabankastjóri, þegar tilkynnt var um kaup ríkisins í Glitni í gær. Mynd/GVA
Gengi hlutabréfa í Glitni hrundi um 71 prósent í Kauphöllinni í dag og dró Úrvalsvísitöluna með sér í fallinu. Hún fór niður um 16,59 prósent og hefur aldrei lækkað jafn mikið á einum degi.

Lokað var fyrir viðskipti með hlutabréf Glitnis í gær á meðan ríkið tilkynnti að það ætli að kaupa 75 prósenta hlut í bankanum fyrir 600 milljónir evra. Ætla má að ríkið taki hlutinn á 1,9 krónur á hlut.

Þá féll gengi bréfa í SPRON um 9,66 prósent og Atlantic Petroleum um níu prósent.  Gengi Existu fór niður um 8,26 prósent, Atorku um 5,37 prósent og Landsbankans um 5,12 prósent.

Þá féll gengi bréfa í Century Aluminum, Kaupþings og Bakkavarar um fjögur prósent og meira en Eik banka, Straums, Eimskipafélagsins, Icelandair og Marel minna.

Gengi bréfa í Færeyjabanka hækkaði um 2,44 prósent, Alfesca um 0,47 prósent og Össurar um 0,11 prósent í dag.

Úrvalsvísitalan féll um 16,59 prósent í dag og hefur aldrei fallið jafn mikið á einum degi. Fall Glitnis vegur þar langþyngst. Vísitalan endaði í 3.396 stigum og hefur ekki verið lægri síðan í byrjun árs 2005.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×