Viðskipti innlent

Landsbankinn opnar Icesave í Hollandi

Í dag hefur Landsbankinn innlánastarfsemi á netinu á meginlandi Evrópu með opnun Icesave í Hollandi. Á komandi ári mun Landsbankinn sækja inn á fleiri evrópska markaði og opnun Icesave í Hollandi er fyrsta skrefið í þá átt.

Í tilkynningu frá bankanum segir að með því að bjóða einfalda vöru, samkeppnishæf kjör og notendavænan netreikning er Icesave nú meðal vinsælustu sparnaðarreikninga á breskum markaði. Fjöldi nýrra notenda það sem af er 2008 hefur slegið öll met en Icesave í Bretlandi telur í dag yfir 220.000 netreikninga í hinum ýmsu vöruflokkum.

Netreikningur Icesave í Hollandi mun styðja við heildsöluinnlán útibús bankans í Amsterdam og auka enn frekar fjölbreytni vöruframboðs í vaxandi starfsemi Landsbankans í Hollandi. Landsbankinn hefur skipað Marteijn Hohmann yfirmann Icesave í Hollandi.

Starfsemi Icesave í Hollandi á að vera bæði sveigjanleg og öflug sem auðveldar Landsbankanum að sækja inn á fleiri markaði Evrópu.

„Við erum sannfærð um að Icesave, sem býður upp samkeppnishæf kjör og margs konar sparnaðarleiðir, laði að skynsama sparifjáreigendur í Hollandi, rétt eins og gerst hefur í Bretlandi," segir Sigurjón Þ. Árnason, bankastjóri Landsbankans.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×