Viðskipti innlent

Spölur úr hagnaði í tap

Við Hvalfjarðargöngin.
Við Hvalfjarðargöngin. Mynd/Pjetur

Spölur, sem rekur Hvalfjarðargöngin, tapaði 146 milljónum króna á fyrsta ársfjórðungi samanborið við 67 milljóna króna hagnað á sama tíma í fyrra. Fyrstu þrír mánuðir ársins var annar fjórðungurinn í bókum Spalar en árinu lýkur þar í enda september ár hvert. Á fyrri hluta ársins tapaði félagið 169 milljónum króna samanborið við 89 milljóna króna hagnað árið á undan.

Í uppgjöri Spalar kemur fram að 397 milljónir króna hafi skilað sér í kassann af vegggjöldum á fyrri helmingi rekstrarársins. Það er tveimur milljónum minna en árið á undan.

Þá nam rekstrarkostnaður án afskrifta á fyrstu sex mánuðum ársins 167 milljónum króna samanborið við 109 milljónir árið á undan. Þetta jafngildir því að kostnaðurinn hafi aukist um 53 prósent á milli ára. Mismunurinn liggur nánast allur í gjaldfærslu á undirbúningskostnaði vegna nýrra ganga, að því er segir í uppgjöri félagsins.

Gylfi Þórðarson, framkvæmdastjóri Spalar, segir umferð og tekjur vel í takt við áætlanir. Framundan séu umferðarmestu mánuðir ársins sem að öllu jöfnu séu með um 60 prósent af tekjunum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×