Viðskipti innlent

Engin ákvörðun verið tekin um uppgjör skulda í Kaupþingi

Finnur Sveinbjörnsson, bankastjóri Nýja Kaupþings.
Finnur Sveinbjörnsson, bankastjóri Nýja Kaupþings.

Tölvupóstar hafa gengið ljósum logum um Netheima í dag þar sem því er haldið fram að skuldir yfirmanna hjá Kaupþingi við bankann hafi verið strikaðar út. Þetta hafi verið ákveðið til þess að viðkomandi aðilar kæmust hjá gjaldþroti, en stjórnendur banka mega ekki vera gjaldþrota samkvæmt lögum. Vísir hefur leitað eftir viðbrögðum frá bankanum í dag og hefur bankinn sent frá sér eftirfarandi yfirlýsingu.

„Samkvæmt ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 21. október 2008 var öllum eignum Kaupþings banka hf., hverju nafni sem nefnast, svo sem fasteignum, lausafé, reiðufé, eignarhlutum í öðrum félögum og kröfuréttindum ráðstafað til Nýja Kaupþings banka hf. meðal annars skuldir vegna verðbréfakaupa viðskiptavina, þar með talið starfsmanna," segir í yfirlýsingunni.

„Engin ákvörðun hefur verið tekin um uppgjör þessara skulda en unnið er að lausn þessara mála í samvinnu við viðskiptavini," segir að lokum og því bætt við að öðru leyti geti bankinn ekki tjáð sig um atriði sem lúta að einkamálefnum viðskiptavina hans.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×