Innlent

Ísland skólabókardæmi um hvernig ekki á að bregðast við kreppu

Dr. Jón Daníelsson prófessor við London School of Economics segir að viðbrögð íslenskra stjórnvalda séu skólabókardæmi um hvernig ekki eigi að bregðast við fjármálakreppu eins og þeirri sem ríkir nú á Íslandi.

Jón segir að stjórnvöld hafi ekki hafa leitað til sín vegna efnahagskreppunnar sem nú skekur landið. Þetta kom fram í þætti Sigurjóns M. Egilssonar, Sprengisandi á Bylgjunni í dag.

Jón er sérfræðingur í fjármálakreppum og hann sagði í þættinum að kreppan sem varð á sínum tíma í Argentínu og í Asíu sé eins og sú á Íslandi nú.

Hann segir að nánast það einasta sem þurfi að breyta í skýrslum frá Asíukreppunni sé að setja nafn Íslands inn í staðinn og þá standi skýrslan. Hann segir að allt sem hér hafi gerst hafi verið skólabókardæmi, bankakreppan, pólitíkin og mistökin sem gerð hafa verið. Í raun sé um að ræða klassísk mistök.

Varðandi heimilin í landinu sagði Jón að ríkið gæti gert ýmislegt til að hjálpa, til dæmis mætti kippa gjaldþrotalöggjöfinni úr sambandi í þrjá mánuði þannig að enginn verði gerður gjaldþrota. Og varðandi þá sem standa verst, geti ríkið eða bankarnir, sem séu eitt og hið sama, lengt í lánum fólks eða keypt hluta af fasteignum þess. Síðan eftir einhver ár, þegar betur stendur á eða fasteignin seld, fái ríkið sinn hlut endurgreiddan.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×