Erlent

Flugþjónninn kveikti í vélinni

Óli Tynes skrifar

Nítján ára bandarískur flugþjónn var svo reiður yfir flugleiðinni sem hann var settur á að hann kveikti í klósetti flugvélarinnar.

Eder Rojas vinnur....eða öllu heldur vann hjá Compass Airlines sem er dótturfélag Northwest Airlines.

Hann var á flugleið frá Minneapolis til Regina í Kanada, með millilendingu í hinum fræga bíóbæ Fargo.

Við það var hann vægast sagt ósáttur. Og fékk útrás fyrir gremju sína með því að kveikja í pappírshandþurrkum á klósettinu.

Vélin var búin að vera á flugi í 35 mínútur þegar ljós kviknaði í stjórnklefanum sem varaði við reyk á klósettinu. Rojas og annar flugþjónn voru beðnir um að kanna málið. Og mikið rétt, handþurrkurnar stóðu í björtu báli.

Rojas, hinn flugþjónninn og farþegi fengu lof fyrir að slökkva eldinn með handslökkvitæki. Vélin lenti heilu og höldnu í Fargo.

Sjötíu og tveir farþegar voru um borð og engan þeirra sakaði. Það var semsagt allt í góðu þartil FBI komst í málið.

Lögreglumennirnir fundu kveikjara í farangursrýminu sem er fyrir ofan sætin.

Og á kveikjaranum fundu þeir fingraför Rojas. Hann á yfir höfði sér allt að tuttugu ára fangelsi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×