Viðskipti innlent

Straumur leiðir lækkanahrinu í Kauphöllinni

William Fall, forstjóri Straums, ásamt Björgólfi Thor Björgólfssyni, stjórnarformanni fjárfestingabankans.
William Fall, forstjóri Straums, ásamt Björgólfi Thor Björgólfssyni, stjórnarformanni fjárfestingabankans. Mynd/Anton
Gengi hlutabréfa í Straumi-Burðarási féll um 3,87 prósent í upphafi viðskiptadagsins í Kauphöllinni í dag. Þetta er mesta fall dagsins í þeirri alþjóðlegu niðursveiflu sem hefur einkennt gengi fjármálafyrirtækja á hlutabréfamarkaði í dag.

Á eftir Straumi fylgir Exista, sem féll um 3,54 prósent, Landsbankinn, sem fór niður um 3,18 prósent í fyrstu viðskiptum dagsins og Glitnir, en gengi bréfa í bankanum fór niður um 3,03 prósent.

Þá féll gengi bréfa í Kaupþingi um tvö prósent.

Gengi annarra félaga lækkaði minna.

Gengi bréfa í Century Aluminum, móðurfélagi Norðuráls, hækkaði hins vegar um 0,54 prósent í upphafi dags en það er eina hækkunin í dag.

Úrvalsvísitalan féll um 2,36 prósent á sama tíma og stendur vísitalan í 3.874 stigum. Hún hefur ekki verið undir 3.900 stigum síðan seint í mars árið 2005.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×