Innlent

Segir góða loðnuveiði fyrir innan Tvísker

MYND/365

Mikla loðnu virðist vera að finna fyrir innan Tvísker fyrir austan Ingólfshöfða að sögn sjómanns sem þar var við veiðar.

Vísir náði tali af Magnúsi Jónassyni, fyrsta stýrimanni á Sighvati Bjarnasyni VE, fyrir stundu. Skipið var á leið í land með 450 tonn af loðnu sem fékkst í einu kasti á þessu svæði. Að sögn Magnúsar eru fleiri skip á svæðinu og hafa þau einnig náð góðum köstum. „Torfan var tvær mílur á lengd og 1,8 á breidd," segir Magnús og gefur lítið fyrir það enga loðnu sé að finna. Aðspurður segir hann að skipverjar á Sighvati Bjarnasyni hafi ekki komið auga á hafrannsóknaskip á svæðinu.

Beðið er eftir því að Hafrannsóknastofnun ljúki mælingu sinni á stærð loðnustofnsins en fyrr í dag kom fram að allt útlit væri fyrir að loðnuveiðin yrði stöðvuð í dag vegna þess að stofninn er í mikilli lægð. Slík ákvörðun er talin geta kostað útvegsfyrirtæki, sjómenn og byggðarlög milljarðatap.

Magnús segir að sjómönnum lítist ekki illa á stöðuna. „Loðnan er þarna til staðar og menn verða að átta sig á því að þetta er fiskur sem er óútreiknanlegur í hegðun," segir Magnús.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×