Össur hækkar einn í Kauphöllinni

Gengi hlutabréfa í stoðtækjafyrirtækinu Össuri hefur hækkað um 0,97 prósent í sex viðskiptum upp á 38 milljónir króna í Kauphöllinni í dag. Þetta er eina hreyfingin á íslenskum hlutabréfamarkaði frá því viðskipti hófust fyrir tæpum tuttugu mínútum. Á sama tíma hefur mikil uppsveifla einkennt flesta erlenda hlutabréfamarkaði eftir að kínversk stjórnvöld kynntu viðamikinn aðgerðapakka næstu tvö árin til að sporna við áhrifum fjármálakreppunnar. Hækkun vísitalna á erlendum mörkuðum telur á bilinu þrjú til fjögur prósent. Úrvalsvísitalan hefur hækkað um 0,12 prósent í dag og stendur hún í 651 stigi.