Enski boltinn

Gillett á enn í viðræðum við DIC

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
George Gillett, annar eiganda Liverpool.
George Gillett, annar eiganda Liverpool. Nordic Photos / Getty Images

George Gillett, annar eiganda Liverpool, á enn í viðræðum við fjárfestingarfélagið DIC frá Dubai um sölu á 50 prósenta hlut hans í félaginu.

Í gær bárust þær fregnir að DIC hefði boðið 400 milljónir punda í Liverpool en að bæði Gillett og Tom Hicks, hinn eigandi Liverpool, hafi hafnað tilboðinu. Hicks er ekki sagður vilja selja og Gillett finnst sem svo að hans hlutur sé meira virði en DIC er reiðubúið að borga fyrir.

Á fréttavef BBC kemur fram að lögfræðingur Gillett og fulltrúar frá DIC hafi hist á hóteli á Lundúnum í gær. Viðræðurnar munu halda áfram á næstu dögum en samkvæmt heimildum BBC er DIC ekki sagt tilbúið að hækka tilboð sitt í hluta Gillett.

Í sömu frétt segir að Hicks sé nú að undirbúa fjármögnun til þess að kaupa Gillett út úr félaginu. Sagt er að þeim félögum hafi sinnast síðan þeir keyptu félagið í mars í fyrra en báðir eru þeir einkar óvinsælir hjá stuðningsmönnum Liverpool. Hafa þeir hvatt DIC til að kaupa Liverpool með öllum tiltækum ráðum.

Það sem flækir málið enn frekar er að Gillett getur ekki selt sinn hluta í Liverpol án samþykkis Hicks og öfugt. Það er því nokkuð ljóst að ef Hicks tekst að safna nægu fé til að kaupa Gillett út er það mun líklegri niðurstaða en aðkoma DIC.


Tengdar fréttir

Eigendum Liverpool settir afarkostir

Fjárfestingarfyrirtækið DIC frá Dubai hefur gefið eigendum Liverpool, Tom Hicks og George Gillett, sólarhring til að ganga að tilboði þeirra í klúbbinn.

DIC: Engin tímamörk

Talsmaður fjárfestingarfélagsins DIC frá Dubai hafnaði í dag þeim fregnum að eigendur Liverpool hefðu sólarhring til að svara tilboði félagsins í Liverpool.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×