Körfubolti

Shouse og Zdravevski áfram hjá Stjörnunni

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Justin Shouse í leik með Snæfelli á síðasta tímabili.
Justin Shouse í leik með Snæfelli á síðasta tímabili. Mynd/Anton

Stjórn körfuknattleiksdeildar Stjörnunnar hefur komist að samkomulagi við þá Justin Shouse og Jovan Zdravevski um að halda áfram að spila með liðinu í vetur.

Fram kom á Vísi í gær að samningar beggja hefðu verið í endurskoðun í gær hjá stjórninni. Gunnar Sigurðsson, formaður stjórnarinnar, sagði í samtali við Vísi í gær að viðræður við tvímenningana hafi skilað góðum árangri.

„Við náðum að semja um hagstæðari kjör við báða leikmenn fyrir deildina. Deildin hefur þar með náð að minnka kostnað og og getur því enn staðið við gerðar áætlanir," sagði Gunnar.

Hann bætti því þó við að ef ástandið myndi breytast enn frekar yrði þá að endurskoða þær áætlanir.

Jovan Zdravevski er íslenskur ríkisborgari en aðeins hann og Shouse voru einu leikmenn liðsins á launum eftir að samningi Nemanja Sovic var sagt upp í vikunni.

„Við þurftum að lækka launin hjá Jovan líka. Við erum mjög ánægðir með að þeir hafi með þessu komið til móts við okkur og teljum við að við höfum náð að gera samninga sem voru mjög góðir fyrir báða aðila."

„Það hefði verið mjög slæmt að missa Justin þar sem hann er bæði að kenna í skóla hér í Garðabæ og er að þjálfa yngri flokka. Ég sé enga ástæðu til að reka menn bara til þess eins að reka þá ef það er yfir höfuð hægt að halda þeim," bætti hann við.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×