Menning

Listahátíð leggur net fyrir vorið

Hrefna Haraldsdóttir listrænn stjórnandi Listahátíðar í Reykjavík.
Hrefna Haraldsdóttir listrænn stjórnandi Listahátíðar í Reykjavík.

Listahátíð í Reykjavík verður haldin í 39. sinn á vori komanda og er nú hafinn undirbúningur fyrir hátíðina undir stjórn nýs listræns stjórnanda, Hrefnu Haraldsdóttur. Hefur hátíðin nú auglýst eftir umsóknum um tónleikahald í heimahúsum í Reykjavík í maí 2009. Óskað er eftir tónlistarfólki á öllum sviðum tónlistar. Fjöldi flytjenda má vera frá einum til fimm. Umsóknum fylgi upplýsingar um efnisskrá, flytjendur og húsnæði sem tekur að lágmarki 25 manns í sæti.

Hugmyndin um stofutónleika á Listahátíð 2009 felur í sér að fá framúrskarandi tónlistarmenn til þess að bjóða gestum heim í stofu til sín. Þannig fá áheyrendur einstakt tækifæri til að njóta tónlistar í nálægð við listamennina. Til stendur að tónleikarnir fari fram á tveggja tíma fresti víðs vegar um borgina sunnudaginn 24. maí. Áætlað er að hverjir tónleikar verði 30 til 40 mínútna langir. Valið verður úr innsendum umsóknum og öllum umsækjendum svarað. Valnefndina skipa fulltrúar Listahátíðar í Reykjavík, Félags íslenskra tónlistarmanna (FÍT) og Félags íslenskra hljómlistarmanna (FÍH).

Umsóknir berist eigi síðar en 25. nóvember til Listahátíðar í Reykjavík, pósthólf 88, 121 Reykjavík, merktar STOFUTÓNLEIKAR. Nánar verður greint frá greiðslu fyrir tónleikahaldið við afgreiðslu umsókna.- pbb






Fleiri fréttir

Sjá meira


×