Innlent

Drengur mikið brenndur eftir sprengingu í húsbíl -MYNDBAND

Sprenging varð í húsbíl í Grindavík í gærkvöldi og voru tæplega þriggja ára barn og karlmaður á sjötugsaldri færð á slysadeild með brunasár.

Sprengingin varð um tíuleytið í gærkvöldi og kviknaði mikill eldur í bílnum eins og sést á meðfylgjandi myndum sem teknar voru á myndavélasíma og settar voru á heimasíðuna youtube.com.

Tveir voru í bílnum þegar sprengingin varð, karlmaður á sjötugsaldri og barnabarn hans sem er tveggja og hálfs árs drengur. Voru þeir fluttir á slysadeild Landspítalans á Fossvogi.

Drengurinn er töluvert mikið slasaður og er honum haldið sofandi í öndunarvél. Hann er mikið brenndur, einkum á höfði og á höndum. Maðurinn brenndist einnig nokkuð en er eftir því sem fréttastofa kemst næst ekki alvarlega slasaður.

Björgunarsveitarmenn úr Grindavík slökktu eldinn áður slökkvilið kom á vettvang. Þrír björgunarsveitarmenn voru fluttir til aðhlynningar hjá lækni með snert að reykeitrun.

Rannsóknardeild lögreglunnar á Suðurnesjum rannsakar málið, en grunur leikur á að sprengingin hafi orðið út frá gasi.

Sjá myndband hér




Fleiri fréttir

Sjá meira


×