Körfubolti

Jón Arnór tæpur - Hreggviður snýr aftur

Jón Arnór spilar sinn fyrsta deildarleik í rúm sex ár fyrir KR í kvöld þrátt fyrir bakmeiðsli
Jón Arnór spilar sinn fyrsta deildarleik í rúm sex ár fyrir KR í kvöld þrátt fyrir bakmeiðsli Mynd/Stefán

Jón Arnór Stefánsson spilar í kvöld fyrsta deildarleik sinn fyrir KR í sex ár þegar liðið tekur á móti ÍR í fyrstu umferð Iceland Express deildarinnar.

Jón Arnór hefur reyndar ekki geta beitt sér á fullu með KR á æfingum vegna bakmeiðsla undanfarið og æfði t.d. ekki með liðinu í gær.

Benedikt Guðmundsson þjálfari segir að Jón verði á sínum stað í byrjunarliðinu í kvöld, en að vel verði fylgst með heilsu kappans.

"Við ætlum að láta reyna á þetta í kvöld og láta hann byrja svo hann verði heitur inni á vellinum. Ef það klikkar verðum við bara að hvíla hann svo hann nái sér að fullu," sagði Benedikt.

Hann segist ekki geta sagt fyrir um hvort meiðsli Jóns séu alvarleg en vonast til að hann fái góðar móttökur í kvöld.

Hreggviður mættur til leiks hjá ÍR

Af ÍR-liðinu er það að frétta að Jón Arnar Ingvarsson þjálfari ætlar að láta Hreggvið Magnússon spila eitthvað í kvöld, en Hreggviður hefur ekki geta leikið með liðinu í undirbúningnum vegna hnémeiðsla.

"Hann hefur æft með okkur undanfarið og við ætlum að leyfa honum að prófa eitthvað í kvöld. Hann verður að fara hægt af stað," sagði Jón Arnar í samtali við Vísi.

ÍR-ingar mæta sem kunnugt er til leiks með eingöngu íslenska leikmenn eftir að hafa riðið á vaðið í kreppuuppsögnunum á dögunum.

Liðið tapaði tvívegis stórt fyrir KR í Reykjavíkurmótinu og Poweradebikarnum og hyggur eflaust á hefndir í DHL-höllinni í kvöld.

Leikir kvöldsins:

KR-ÍR 19:15

FSU-UMFN 19:15

Grindavík-Stjarnan 19:15








Fleiri fréttir

Sjá meira


×