Viðskipti innlent

Samdrátturinn sést í sorpinu

Minni losun sorps frá atvinnufyrirtækjum bendir til samdráttar í hagkerfinu, að sögn framkvæmdastjóra Sorpu.
Minni losun sorps frá atvinnufyrirtækjum bendir til samdráttar í hagkerfinu, að sögn framkvæmdastjóra Sorpu. Markaðurinn/Stefán

„Minni losun sorps frá fyrirtækjum er vísbending um hvert stefnir í hagkerfinu," segir Björn H. Halldórsson, framkvæmdastjóri Sorpu.

Hann segir nokkuð hafa dregið úr losun úrgangs frá fyrirtækjum á fyrstu sjö mánuðum ársins frá sama tíma í fyrra. Blikur eru á lofti um að frekar sé að draga úr losuninni frá bygginga- og iðnaðargeiranum. Þetta sýnir horfurnar, að það sé að draga úr framkvæmdum, segir Björn. Þetta felur að sama skapi í sér að tekjur Sorpu dragast væntanlega saman á seinni hluta árs því fyrirtæki greiða fyrir hvert losað kíló.

Sorpa hagnaðist um nítján milljónir króna á fyrri helmingi ársins. Á sama tíma í fyrra nam hagnaðurinn hins vegar 64,8 milljónum króna. Björn bendir á að inni í tölunum séu bygging nýrrar endurvinnslustöðvar í Hafnarfirði og framtíðarlausnir, svo fátt eitt sé nefnt, sem ekki hafi fallið til í fyrra.

Rekstrartekjur námu 992,3 milljónum króna miðað við 945,7 milljónir í fyrra. Á sama tíma dró úr rekstrargjöldum. Þau námu 839 milljónum króna sem er rúmum þremur milljónum minna en í fyrra.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×