Tífaldur meistari í ís-kappakstri, Frakkinn Yvan Muller var í dag tilkynntur sem liðsfélagi Sebastian Leob í liði Frakklands í meistarakeppni ökumanna á Wembley í London í desember.
Muller hefur keppt við marga fræga kappa í Andros Trophy ísakstursmótinu í Ölpunum á fjórhjóladrifnum bílum síðustu ár og varð meistari í fólksbílakappakstri árið 2003.
"Þegar manni er boðið í Meistaramót ökumanna, þá er svarið bara já og ekkert annað. Þetta er skemmtileg mót sem kætir áhorfendur í návígi og skemmtun fyrir ökumenn líka", sagði Muller.
Meistaramót ökumanna er liðakeppni á milli landa og takast ökumenn á hvor við annan á samhliða braut á malbiki. Muller og Loeb keppa saman fyrir hönd Frakklands, en Leob tryggði sér rallmeistaratitilinn í fimmta skipti á dögunum.
Mótið á Wembley verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport og meðal þeirra sem verða á svæðinu er Lewis Hamilton, nýkrýndur Formúlu 1 meistari og Michael Schumacher sjöfaldur meistari í sömu í íþróttinni.