Íslenski boltinn

Fjölnir í úrslit bikarsins

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Fjölnismenn fögnuðu sætum sigri í dag.
Fjölnismenn fögnuðu sætum sigri í dag.
Fjölnismenn tryggðu sér í dag sæti í úrslitum bikarkeppni karla eftir sigur á Fylki í undanúrslitum.

Leikurinn var afar kaflaskiptur en Gunnar Már Guðmundsson kom Fjölni yfir á sautjándu mínútu.

Kjartan Breiðdal jafnaði svo metin á 30. mínútu af mikilli seiglu og sjö mínútum síðar kom Þórir Hannesson Fylkismönnum yfir með skallamarki eftir sendingu Ian Jeffs.

En þá kom þriggja mínútna kafli sem Fylkismenn vilja gleyma fljótt. Fyrst skoraði Valur Fannar Gíslason sjálfsmark og svo gaf Þórir boltann beint á Pétur Georg Markan sem var þar með kominn einn gegn Fjalari markverði og skoraði af öryggi.

En Fjölnismenn gerðu líka mistök í sínum varnarleik og eftir ein slík náði Ian Jeffs að jafna metin fyrir Árbæinga.

Allt stefndi í framlengingu er Tómas Leifsson skoraði sigurmark leiksins í uppbótartíma eftir fyrirgjöf varamannsins Davíðs Þórs Rúnarssonar.

Breiðablik og KR mætast í hinni undanúrslitaviðureigninni á Laugardalsvelli annað kvöld klukkan 20.

Leiknum var lýst beint á Boltavakt Vísis og Fréttablaðsins og má lesa lýsinguna með því að smella á leikinn á Miðstöð Boltavaktar Fréttablaðsins og Vísis.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×