Alessandro Del Piero segir að leikmenn Juventus séu ákveðnir í að snúa við slæmu gengi liðsins. Hann segir að menn ætli að standa saman til að fleiri stig fari að koma í hús.
Framtíð Claudio Ranieri, þjálfara liðsins, er í mikilli óvissu eftir jafntefli gegn Catania, Sampdoria og BATE Borisov ásamt tapi á heimavelli gegn Palermo í gær. Juventus er í ellefta sæti ítölsku deildarinnar eftir sex umferðir.
„Það eru engin vandamál í búningsklefanum. Enginn hefur komið til mín og sagt að það sé eitthvað vandamál. Menn standa saman og ég er mjög bjartsýnn á að ástandið batni," sagði Del Piero.
„Við þurfum að leggja mikið á okkur og gefa okkur alla í verkefnið. Fullt af hlutum hafa ekki verið að ganga upp og við þurfum að rétta skútuna við."