Viðskipti innlent

Ellefu þúsund króna viðskipti hækka gengi Teymis

Ólafur Þór Jóhannesson, framkvæmdastjóri fjármálasviðs Teymis, og Árni Pétur Jónsson, forstjóri fyrirtækisins.
Ólafur Þór Jóhannesson, framkvæmdastjóri fjármálasviðs Teymis, og Árni Pétur Jónsson, forstjóri fyrirtækisins. Mynd/GVA

Gengi bréfa í Teymi er það eina sem hækkaði í fyrstu viðskiptum dagsins í Kauphöll Íslands í dag. Ekki er þó um stórviðskipti að ræða en á bakvið hækkunina er velta upp á rúmar ellefu þúsund krónur. Eimskipafélagið hefur fallið um 2,7 prósent og Exista um 2,5 prósent. Önnur félög hafa lækkað minna.

Þá hefur gengi Bakkavarar, Straums, Landsbankans, Glitnis og Kaupþings lækkað um tæp prósent. Engin breyting var á gengi annarra félaga í byrjun dags.

Gengi bréfa í Teymi lækkaði um fjórðung í gær og fyrradag án þess að sérstakar fréttir bærust frá félaginu.

Úrvalsvísitalan hefur það sem af er degi lækkað um 0,39 prósent og stendur hún í 4.412 stigum. Hún hefur ekki verið lægri síðan í byrjun ágúst árið 2005.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×