Innlent

Tveir á reynslulausn á meðal hinna handteknu

Líkt og Vísir greindi frá fyrr í dag hefur lögreglan handtekið fjóra karlmenn í tengslum við fíkniefnaframleiðsluna í Hafnarfirði. Þrír hinna handteknu, sem allir eru íslendingar, eru á þrítugsaldri og einn á fertugsaldri.

Samkvæmt heimildum Vísis eru tveir af þessum mönnum þeir Jónas Ingi Ragnarsson og Tindur Jónsson.

Jónas Ingi kom við sögu í einu umtalaðasta sakamáli síðari ára. Hann var einn þeirra sem hlaut fangelsisdóm í hinu svokallaða "Líkfundarmáli" á Neskaupsstað.

Fyrir aðild sína að málinu hlaut Jónas Ingi tveggja og hálfs árs fangelsisdóm fyrir innflutning á um 230 grömmum af amfetamíni sem Litháinn Vaidas Jucevicius var með innvortis þegar hann kom hingað til lands.Vaidas veiktist eftir komu sína til landsins og lést í kjölfarið vegna stíflu í mjógirni af völdum fíkniefnapakninganna.

Heimildir Vísis herma að Jónas Ingi hafi verið handtekinn í iðnaðarhúsnæðinu í Hafnarfirði í dag.

Tindur Jónsson hlaut sex ára fangelsisdóm, 19 ára gamall, fyrir hrottalega líkamsárás í Garðabæ árið 2005 þegar hann réðist að öðrum pilti vopnaður sveðju.

Í ágúst 2007 þegar Tindur afplánaði dóm sinn á Kvíabryggju hóf hann nám í efnafræði við Háskóla Íslands. Tindur fékk reynslulausn fyrir skömmu og átti um 1000 daga eftir af henni.

Þeir voru báðir úrskurðaðir í tveggja vikna gæsluvarðhald í dag.




















Fleiri fréttir

Sjá meira


×