Menning

Umhverfissóðarsuður með sjó

Bannaður aðgangur? Væntanlega eru allir velkomnir á samsýningu fimmtán listamanna í sýningarrýminu Suðsuðvestur í Reykjanesbæ.
Bannaður aðgangur? Væntanlega eru allir velkomnir á samsýningu fimmtán listamanna í sýningarrýminu Suðsuðvestur í Reykjanesbæ.

Sýningin „Gæti tafið framkvæmdir á Suðurnesjum: umhverfissóðar láta enn til sín taka“ er samstarfsverkefni þar sem fimmtán myndlistarmenn og myndlistarnemar við Listaháskóla Íslands sýna afrakstur rannsókna sinna á Suðurnesjum síðustu þrjú árin. Sýningin verður opnuð í sýningarrýminu Suðsuðvestur, Hafnargötu 22 í Reykjanesbæ, á morgun kl. 17.

Listamennirnir fóru vítt um Suðurnesin í efnisleitarferðum sínum; efnistök sýningarinnar eru því fjölþætt og unnið er úr hráefninu á margvíslegan máta. Lífsgildi Suðurnesjabúa og annarra Íslendinga eru afhjúpuð á sýningunni með gamansömum, ljóðrænum og pólitískum aðferðum.

Sýningin er tvískipt; í hinu hefðbundna sýningarrými Suðsuðvestur hefur verið sett upp upplýsingamiðstöð þar sem gestir geta skoðað efni tengt Suðurnesjum, en sjálf myndlistarverkin hafa hreiðrað um sig á stöðum sem hingað til hafa haft annað hlutverk, í kjallaranum undir sýningarrýminu, íbúðinni fyrir ofan, skrifstofunni, háaloftinu og veröndinni.

Ýmsir miðlar eru notaðir til að myndgera viðfangsefnið og koma því út í samfélagið, svo sem teikningar, skúlptúrar, málverk, myndbönd, ljósmyndir, útsaumur, hljóð og gjörningar.

Suðsuðvestur er opið laugardaga og sunnudaga frá kl. 13-17, en annars eftir samkomulagi. Ofangreindri sýningu lýkur 5. október. - vþ






Fleiri fréttir

Sjá meira


×