Brasilíski framherjinn Adriano hjá Inter Milan er enn úti í kuldanum hjá þjálfara sínum Jose Mourinho. Hann er ekki í leikmannahópi liðsins fyrir leikinn gegn botnliði Reggina á morgun.
Adriano var settur út úr liðinu á dögunum eftir að hafa komið of seint á æfingu. Ítalskir fjölmiðlar fluttu fréttir af því að hann hefði verið úti á lífinu kvöldið áður.
"Við erum hópur og hér gilda reglur. Adriano hefði verið mikilvægur hlekkur í liðinu fyrir leikinn á morgun, en við verðum að fara eftir settum reglum," sagði Mourinho á blaðamannafundi í dag.