Innlent

Ný skoðanakönnun: Ólafur F. geldur afhroð og Samfylking tvöfaldar fylgið

Flokkur borgarstjórans í Reykjavík, Ólafs F. Magnússonar, geldur afhroð í nýrri skoðanakönnun um fylgi flokka í Reykjavík, sem Capacent gerði fyrir Stöð 2.

Samkvæmt könnuninni fær flokkur hans aðeins 1,8 prósenta fylgi í Reykjavík. Samfylkingin nærri tvöfaldar fylgi sitt miðað við síðustu kosningar ef marka má könnunina og fær tæplega 48 prósenta fylgi.

Capacent spurði: Ef kosið yrði í dag til borgarstjórnar hvaða lista myndir þú kjósa/eða líklegast kjósa ?

47,8 prósent sögðust myndu kjósa Samfylkinguna.

26,7 prósent Sjálfstæðisflokkinn

21,7 prósent Vinstri græna

2,1 prósent Framsóknarflokkinn

og 1,8 prósent Frjálslynda og óháða.

Ef litið er til síðustu Borgarstjórnarkosninga þá er ljóst að fylgið hefur breyst mikið hjá flokkunum.

Þá kusu:

27,3 prósent Samfylkinguna

42,9 prósent Sjálfstæðisflokkinn

13,5 prósent Vinstri græna

6,3 prósent Framsóknarflokkinn

og 10,1 prósent Frjálslynda og óháða.

Borgarstjórinn með aðeins 1188 atkvæði á bakvið sig

Borgarstjórinn í Reykjavík hafði samtals 6.527 atvæði á bakvið sig eftir síðustu kosningar en samkvæmt könnun Capacent hefur hann nú 1.188. Til viðmiðunar má geta þess að um tólf hundruð manns búa við Vesturberg í Reykjavík.

Capacent gerði könnunina dagana 17. júlí til 6. ágúst. Í úrtakinu voru 758 Reykvíkingar á aldrinum 16 til 75 ára. Svarhlutfall var 65,5 prósent.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×