Lífið

Ungfrú Ísland hjúkrar öldruðum

Alexandra helga ívarsdóttir Mun keppa fyrir Íslands hönd í keppninni Ungfrú alheimur sem fram fer í Úkraínu í október næstkomandi.
Alexandra helga ívarsdóttir Mun keppa fyrir Íslands hönd í keppninni Ungfrú alheimur sem fram fer í Úkraínu í október næstkomandi. Fréttablaðið/Daníel
„Mér finnst þetta bara mjög gaman og það verður spennandi að takast á við þetta,“ segir Alexandra Helga Ívars­dóttir, nýkjörin Ungfrú Ísland. Keppnin fór fram á Broadway síðastliðinn föstudag og var glæsileg að vanda, en það var Yesmine Olsson sem sá um framkomu stúlknanna.

„Þetta var gott tækifæri til að vinna í sjálfri mér, sigrast á feimni og bæta sjálfstraustið,“ segir Alexandra, sem er að ljúka sínu þriðja ári í Menntaskólanum við Sund. Spurð hvort keppnin hafi ekki tekið mikinn tíma frá náminu segir hún svo ekki vera.

„Skólinn var eiginlega búinn, en ég var í prófum á meðan æfingarnar stóðu yfir. Það var erfiðast að tvinna þetta tvennt saman en maður lærði líka að skipuleggja tíma sinn betur. Ég náði öllu nema einu prófi, en ég fer í endurtökupróf í því fagi,“ segir Alexandra.

En hvað tekur nú við?

„Í sumar ætla ég að vinna á elliheimilinu Eir í Grafarvogi, en fyrst ætla ég í langþráð frí til Flórída með kærastanum mínum og fjölskyldu hans,“ segir Alexandra sem mun fara fyrir Íslands hönd í keppnina Ungrú alheimur sem haldin verður í Úkraínu í október næstkomandi.

„Æfingar byrja ekki alveg strax, en ég er mjög spennt fyrir keppninni og það verður gaman að fara til Úkraínu.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×