Fótbolti

Kaka óttast að fara sömu leið og Eduardo

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Kaka í leik með AC Milan.
Kaka í leik með AC Milan. Nordic Photos / AFP

Brasilíumaðurinn Kaka óttast að það fari fyrir honum eins og hjá Eduardo, leikmanni Arsenal.

Eduardo meiddist illa eins og frægt er þegar að Martin Taylor, leikmaður Birmingham, tæklaði hann með afar ljótum afleiðingum. Talið er að Eduardo verði níu mánuði að jafna sig.

Kaka hefur átt við þrálát meiðsli í hné að stríða á tímabilinu og hefur hann sagt að sífelld brot á sér hafi ýtt stórlega undir þau. Hefur hann farið fram á það að hann fái meiri vernd frá dómurum.

AC Milan mætir Arsenal í síðari viðureign liðanna í Meistaradeild Evrópu í kvöld en Kaka er leikmaður AC Milan og Eduardo er á mála hjá Arsenal. Báðir eru einnig fæddir í Brasilíu en Eduardo hefur tekið upp króatískt ríkisfang.

„Við þurfum að breyta ástandinu þannig að hæfileikaríkir leikmenn eru ekki sparkaðir niður í sífellu. Ég er til dæmis orðinn mjög þreyttur á meðferðinni sem ég fæ á Ítalíu," sagði Kaka.

„Það er undir dómurum komið að vernda leikmenn sem vilja spila fótbolta. Ég vona að það gerist fljótlega þar sem við höfum orðið vitni að hræðilegum meiðslum eins og þau sem Eduardo varð fyrir."

„Ég varð mjög leiður yfir því sem kom fyrir Eduardo og ég óska hans skjóts bata."

Þrátt fyrir hnémeiðsli Kaka er búist við því að hann verði í byrjunarliði AC Milan í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×