Innlent

Icelandair gæti þénað 700 mkr á kvikmyndasýningum

Icelandair gæti þénað tæpar 700 milljónir króna á ári á kvikmyndasýningum um borð í flugvélum félagsins. Farþegar á almennu farrými þurfa framvegis að greiða fyrir áhorf á kvikmyndum.

Icelandair kynnti á dögunum breytingar á þjónustu félagsins. Meðal nýjunga eru sæti með sjónvarpsskjám þar sem farþegum gefst kostur á að spila tölvuleiki, hlusta á tónlist og horfa á kvikmyndir.

Breytingarnar hafa ekki áhrif á verð flugmiða en farþegar í almennu farrými þurfa framvegis að greiða 10 dolllara eða sem nemur 730 krónum - miðað við núverandi gengi - til að horfa á kvikmyndir. Annað efni er hins vegar ókeypis, þar með talið sjónvarpsþættir og annað fræðsluefni.

Á síðasta ári flugu ein komma átta milljón farþegar með Icelandair. Ef reikna má með svipuðum fjölda á næstu árum og helmingur farþega muni greiða sérstaklega fyrir að horfa á kvikmyndir gætu tekjur Icelandair af þessari sölu numið um 660 milljónum króna á ári.

Í heild greiddi Icelandiar um tvo milljarða fyrir breytingarnar á vélunum. Miðað við áður gefnar forsendur má því áætla að félagið geti greitt fyrir þær breytingar að fullu á þremur til fjórum árum með þeim peningum sem fást fyrir sölu á kvikmyndasýningum.

Þó ber að hafa í huga félagið mun væntanlega þurfa greiða eitthvað fyrir sýningarréttinn á kvikmyndunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×