Stefano Domenicali, nýr framkvæmdarstjóri keppnisliðs Ferrari var meðal liðsmanna þegar Ferrari hélt sína árlegu skíðaveislu á Ítalíu í dag. Þangað mæta helstu liðsmenn Ferrari og sægur fjölmiðlamanna.
Kimi Raikkönen og Felipe Massa, ökumenn liðsins voru á staðnum í sínum besta gír. Domenicali segir að framundan sé hörð barátta á kappakstursbrautum um allan heim.
„Reglubreytingar gætu haft áhrif á gang mála í ár. Það hafa allir þróað bíla sína samkvæmt nýjum reglum, en McLaren verður trúlega helsti keppinautur okkar," sagði Domenicali.
„Renault hefur lagt mikla vinnu í nýja bílinn og svo er Fernando Alonso kominn aftur til liðsins. Ég hef trú á að Renault taki stórt framfaraskref. Við virðum keppinauta okkar og vitum að tímabilið verður langt og strangt, en við stefnum á sama árangur og í fyrra."
Liðsmenn Ferrari munu skíða næstu daga, en Raikkönen og Massa eru ekki hraðskreiðustu brun og svigkóngar liðsins. Þeim mun fljótari á ökutæki sínu, sem kom vel undan vetri.