Viðskipti innlent

Engin svör frá Samvinnutryggingum

„Við náðum ekki að klára þetta áður en menn fóru í sumarfrí," segir Kristinn Hallgrímsson, formaður skilanefndar Eignarhaldsfélagsins Samvinnutrygginga. Hann gerir ráð fyrir því að skilanefndin komi saman í september.

Um 50 þúsund manns sem eiga réttindi í félaginu bíða þess að fá upplýst hversu mikil eign þeirra verður í fjárfestingarfélaginu Gift, sem stofnað var upp úr eignarhaldsfélaginu í fyrra. Þó er vitað að Samvinnusjóðurinn á stærstan hlut, þá SÍS og KEA.

Almennir rétthafar hafa skrifað til Eignarhaldsfélagsins og óskað upplýsinga um stöðu mála. Sumir hafa sent mörg erindi. Enginn hefur hins vegar fengið svör.

Gift á meðal annars hlut í Icelandair, Kaupþingi og fleiri félögum, skráðum og óskráðum.

Eigið fé Giftar var um 30 milljarðar í fyrrasumar, en innan við 20 um áramót, eftir því sem næst verður komist. Síðan hefur verðmæti eigna Giftar minnkað til muna, samfara almennu verðhruni á hlutabréfamarkaði.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×