Viðskipti erlent

Olíuverð í hæstu hæðum

Heimsmarkaðsverð á hráolíu sló met að nýju í dag þegar það skaust í tæpa 140 dali á tunnu. Veiking á gengi bandaríkjadals á hlut að máli.

Verðið á olíunni, sem afhent verður í næsta mánuði, snerti 139,89 dali á tunnu fyrripart í dag og hafði aldrei verið hærra. Það lækkaði hins vegar og stendur nú í 138,86 dölum á tunnu.

Fréttastofa Associated Press hefur eftir fjármálaskýrendum að fjárfestar hafi keypt hrávörur á borð við hráolíu upp á síðkastið til að verja sig gegn aukinni verðbólgu. Þá geri lækkun á gengi dalsins það að verkum að olíutunnan, sem er verðlögð í dölum, verður ódýrari eftir því sem gengið veikist. Þróunin á bandaríkjadalnum er talin vera ein af helstu ástæðum þess að verðið hefur hækkað mikið, að sögn Associated Press.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×