Íslenski boltinn

Eiður: Þreyttur og pirraður í seinni hálfleik

Elvar Geir Magnússon skrifar
Eiður Smári Guðjohnsen.
Eiður Smári Guðjohnsen.

„Við eigum að geta gert betur en þetta," sagði Eiður Smári Guðjohnsen eftir 1-1 jafntefli Íslendinga og Asera á Laugardalsvelli í kvöld.

„Við vorum að prufa uppstillingu með nýjum leikmönnum og ég í annarri stöðu en oft áður. Miðað við það var kannski margt jákvætt en við eigum að geta gert betur en þetta," sagði Eiður sem lék á miðjunni.

„Ég fann mig ágætlega á köflum í fyrri hálfleik en var orðinn þreyttur og pirraður í seinni hálfleik. Ég var með mann á mér sem var andandi á hnakkann á mér í seinni hálfleik og erfitt að finna svæði."

„Í svona leikjum fer maður óhjákvæmilega að hugsa út í það að lenda ekki í meiðslum. Maður sleppir einvígjum sem maður fer í í leikjum sem skipta meira máli."

„Það var of mikið bil milli varnar, miðju og sóknar. Það er margt sem við getum lært af þessum leik. Við verðum að gera betur en þetta ef við ætlum okkur eitthvað í þessum riðli sem við erum að fara að taka þátt í," sagði Eiður að lokum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×