Körfubolti

Taplausir KR-ingar völtuðu yfir Skallagrím

Darri Hilmarsson skoraði 23 stig fyrir KR þegar liðið rótburstaði Skallagrím í kvöld
Darri Hilmarsson skoraði 23 stig fyrir KR þegar liðið rótburstaði Skallagrím í kvöld Mynd/Stefán

Staðan á toppi Iceland Express deildar karla í körfubolta breyttist ekki í kvöld þegar þrír fyrstu leikirnir í tíundu umferð voru spilaðir.

Topplið KR vann tíunda sigur sinn í jafnmörgun leikjum þegar það gjörsigraði botnlið Skallagríms 117-50 í DHL Höllinni í vesturbænum. Þetta var jafnframt tíunda tap Borgnesinga í deildinni.

Leikurinn var aldrei spennandi og fengu varamenn KR að spila mikið eins og svo oft áður í vetur.

Varamennirninr Darri Hilmarsson og Pálmi Freyr Sigurgeirsson skoruðu 23 stig hvor fyrir KR en Igor Beljanski skoraði 17 stig og hirti 10 fráköst hjá Skallagrími.

Grindavík heldur öðru sæti deildarinnar eftir 97-88 útisigur á FSu á Selfossi.

Páll Axel Vilbergsson skoraði 29 stig og hirti 7 fráköst fyrir Grindavík og Þorleifur Ólafsson var með 18 stig og 9 fráköst.

Vésteinn Sveinsson skoraði 23 stig fyrir FSu, Sævar Sigurmundsson skoraði 22 stig og hirti 7 fráköst og Thomas Viglianco skoraði 19 stig og hirti 13 fráköst.

Loks vann Snæfell góðan sigur á Stjörnunni 87-83 í Stykkishólmi.

Slobodan Subasic skoraði 26 stig, gaf 8 stoðsendingar og hirti 6 fráköst fyrir Snæfell, Sigurður Þorvaldsson skoraði 20 stig, Jón Jónsson 17 og Hlynur Bæringsson var með 13 stig, 9 fráköst og 7 stoðsendingar.

Justin Shouse skoraði 29 stig, hirti 9 fráköst og gaf 7 stoðsendingar fyrir Stjörnuna, Fannar Helgason var með 16 stig og 8 fráköst og þeir Kjartan Kjartansson og Jovan Zdravevski skoruðu 14 stig hvor.

KR hefur 20 stig á toppi deildarinnar, Grindavík 18 og Tindastóll 12 í þriðja sætinu og á leik til góða annað kvöld. Keflavík, Njarðvík og Snæfell hafa 10 stig, en suðurnesjaliðin eiga leik til góða.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×