Innlent

Líkamsárás í fyrsta Kompásþætti vetrarins

Benjamín Þór Þorgrímsson, líkamsræktarþjálfari og meintur handrukkari, hefur verið ákærður fyrir að ráðast á Ragnar Ólaf Magnússon fyrrum veitingamann. Fjallað verður um líkamsárásina í fréttaskýringaþættinum Kompási eftir fréttir Stöðvar 2.

Fyrsti Kompásþáttur vetrarins fjallar um hinn dulda heim handrukkara á Íslandi. Við vinnslu þáttarins síðla sumars náðist á myndband þegar Benjamín meintur handrukkari réðist á Ragnar Ólaf, fyrrum veitingamann sem stundum er kenndur við veitingastaðinn Óliver.

Sýnt verður myndskeið í þættinum í kvöld í fullri lengd. Benjamín reyndi að koma í veg fyrir birtingu myndanna með því að krefjast lögbanns en sýslumaðurinn í Reykjavík hafnaði þeirri beiðni. Þá hyggst Benjamín krefja 365 miðla um skaðabætur vegna birtingu myndskeiðsins, á þeim forsendum að hún feli í sér brot á friðhelgi einkalífs.

Og nú hefur ákæra verið gefin út á hendur Benjamín fyrir þessa árás, sem talin er minniháttar líkamsárás. Hann er einnig ákærður fyrir að ráðast á íslenskan karlmann á fertugsaldri á Hilton Nordica hóteli í júlí í sumar.

Ritstjóri þáttarins, Jóhannes Kr. Kristjánsson, kærði í morgun til lögreglu líflátshótanir sem bárust honum í gærkvöldi í gegnum þriðja aðila. Hann telur hótanirnar tengjast birtingu myndanna í kvöld.














Fleiri fréttir

Sjá meira


×