Innlent

Tveir meintir kynferðisbrotamenn í varðhaldi vegna almannahagsmuna

Tveir menn sitja nú í gæsluvarðhaldi vegna meintra grófra kynferðisbrota gegn börnum þeim nátengdum. Mennirnir sitja ekki inni vegna rannsóknarhagsmuna heldur almannahagsmuna.

Mál annars þeirra hefur verið í hámæli en hann starfaði sem háskólakennari til skamms tíma. Níu einstaklingar hafa sakað hann um kynferðisbrot, 3 dætur af seinna hjónabandi, tvö börn af fyrra hjónabandi og fjórar vinkonur dætra hans. Sök í máli tveggja uppkominna barna hans er fyrnd og verður það því ekki rannsakað frekar.

Rannsókn er lokið á málum dætranna og einnar vinkonu þeirra. Maðurinn játaði á sig hluta brotanna og þau eru nú komin til ríkissaksóknara. Talið er að rannsókn á meintum brotum vegna vinkvennanna þriggja ljúki eftir helgi og þá verður allt málið komið til ríkissaksóknara.

Háskólakennarinn situr ekki lengur í gæsluvarðhaldi vegna rannsóknarhagsmuna heldur almannahagsmuna. Það er aðeins gert þegar meint brot varða tíu ára fangelsi eða meira, sem sagt þegar brotin eru talin svo gróf að ekki þyki verjandi að viðkomandi gangi laus.

Annar karlmaður situr í gæsluvarðhaldi á sömu forsendum og er hann grunaður um brot gegn einu barni, sér nátengdu, samkvæmt heimildum fréttastofu Stöðvar 2. Mál hans er enn í rannsókn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×