Innlent

Icelandair Cargo flutti hergögn til Georgíu

Óli Tynes skrifar

Um það bil viku áður en stríðið hófst milli Rússa og Georgíumanna flaug Icelandair Cargo tvær ferðir með hergögn frá Bandaríkjunum til Georgíu. Icelandair fékk til þess tilskylin leyfi frá íslenskum yfirvöldum.

Ekki hafa öll flugfélög leyfi til hergagnaflutninga eða með það sem kallað er dangerous goods, eða hættulegur farmur. Icelandair hefur slíkt leyfi.

Ýmsar ástæður geta legið til þess að Bandaríkjamenn fengu erlent flugfélag til þess að flytja hergögn fyrir sig.

Ein ástæðan er væntanlega sú að það ríkti mikil spenna á þessu svæði löngu áður en átökin hófust. Bandaríkjamenn vissu raunar að þau vofðu yfir og reyndu hvað þeir gátu að fá Saakashvili forseta til að falla ekki í gildru Rússa og ráðast inn í Suður-Ossetíu.

Í slíku ástandi er ekki skynsamlegt pólitískt séð að bandarískar herflutningavélar séu að lenda og taka á loft í miðjum suðupottinum.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×