Íslenski boltinn

Miðvikudagsleikjunum hugsanlega frestað

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Úr leik KR og Fylkis frá því fyrr í sumar.
Úr leik KR og Fylkis frá því fyrr í sumar.

Verið er að skoða hvort færa eigi leiki miðvikudagskvöldsins í Landsbankadeild karla vegna heimkomu íslensku ólympíufaranna.

Ólympíufararnir verða hylltir á Austurvelli klukkan 18.30 á miðvikudag en ekið verður með þá fyrst niður Laugaveginn.

Tveir leikir eru á dagskrá á miðvikudaginn í Landsbankadeild karla. Annars vegar viðureign Fylkis og KR klukkan 18.00 á Fylkisvelli og hins vegar mætast Fram og Fjölnir á Laugardalsvelli klukkan 20.00.

Birkir Sveinsson, mótastjóri KSÍ, sagði í samtali við Vísi að verið væri að vinna í þessum málum.

„Þetta fór strax í gang um leið og við heyrðum af dagskrá ólympíufaranna. En þetta er í höndum félaganna og þau verða að taka sameiginlega ákvörðun um þetta mál," sagði Birkir.

Örn Hafsteinsson, framkvæmdarstjóri knattspyrnudeildar Fylkis, sagði að það væri í mörg horn að líta vegna leik Fylkis og Fjölnis í undanúrslitum bikarkeppninnar á sunnudaginn.

„Báðir þessir leikir áttu upphaflega að fara fram á fimmtudaginn en þegar okkar leikur var færður til miðvikudagsins fylgdi Fjölnisleikurinn með. Það þýðir að ef það á að færa okkar leik aftur á fimmtudaginn þarf hinn að fylgja með."

„Þetta er því engin skyndiákvörðun. Að sama skapi er ljóst að það þarf að taka þessa ákvörðun í dag."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×