Viðskipti erlent

Fall á bandarískum hlutabréfamarkaði

Gengi hlutabréfa lækkaði verulega á bandarískum hlutabréfamarkaði í dag. Fallið orsakast af mikilli hlutabréfasölu fjárfesta, sem nú óttast að bankar og fjármálafyrirtæki beri með sér fleiri lík í lestinni sem geti valdið frekari afskriftum. Þá hækkaði olíuverð nokkuð eftir mikla verðlækkun í gær.

Hlut að máli eiga væntingar um að verðhækkun Kínastjórnar á eldsneyti muni vart slá á mikla eftirspurn eftir olíudropanum auk þess sem spenna hefur vaxið mjög í samskiptum Ísraelsmanna og Írana.

Í ofanálag er óttast að bandarískur bílaiðnaður verði fyrir verulegum skakkaföllum vegna samdráttar í efnahagslífinu vestra.

Dow Jones-hlutabréfavísitalan lækkaði um 1,84 prósent og fór undir tólf þúsund stiga markið. Það hefur ekki gerst síðan um miðjan marsmánuði.

Þá féll Nasdaq-vísitalan um 2,27 prósent.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×