Erlent

Íranar segja bandarísk og ísraelsk herskip fyrstu skotmörk í stríði

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
Um borð í bandarísku herskipi á Persaflóa.
Um borð í bandarísku herskipi á Persaflóa. MYND/AFP

Íranski byltingarvörðurinn hefur gefið út aðvörun sem beint er til Bandaríkjamanna og Ísraelsmanna og gefur til kynna að herskip þessara ríkja á Persaflóa verði fyrstu skotmörkin komi til árásar á Íran.

Tilefni aðvörunarinnar er heræfing byltingarvarðarins sem boðuð hefur verið. Reglulegar heræfingar varðarins fara fram tvisvar til þrisvar á ári og er ekki fullkomlega ljóst hvort um er að ræða eina hinna reglulegu æfinga eða hvort þessi sé sprottin af hinu eldfima andrúmslofti sem nú ríkir.

Herþotur á vegum Ísraelshers héldu stóra æfingu yfir austurhluta Miðjarðarhafsins í júní sem bandarískir embættismenn sögðu hafa líkt eftir aðstæðum við árás á kjarnorkuver í Íran en bandarísk hermálayfirvöld hafa um þessar mundir þungar áhyggjur af hugsanlegri kjarnavopnaframleiðslu Írana.

CNN greindi frá.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×