Innlent

Fjölmargar sendinefndir á Íslandi

Guðjón Helgason skrifar
Norsk sendinefnd ræðir mögulegar björgunaraðgerðir fyrir íslenskt fjármálalíf með helstu ráðamönnum í dag. Enn ræða Íslendingar og Bretar um lausn Icesave mála.

Á Íslandi verður nú vart þverfótað fyrir viðræðu- og sendinefndum sem vilja skoða kreppuna á Íslandi og kannski leggja til aðstoð við að leysa hana.

Morgunblaðið greindi frá því í morgun að sendinefnd frá bandaríska fjármálaráðuneytinu væri á leið til landsins á morgun með fulltrúa alþjóðadeildar ráðuneytisins innaborðs. Bandaríska sendiráðið hefur enn ekki staðfest það í samtali við fréttastofu Vísis en nefndin mun á eigin vegum og fundir hennar undirbúnir af sendiráðinu.

Norræn sendinefnd kom í gær til viðræðna við íslensk stjórnvöld um kreppuna og mögulega aðstoð. Í henni eru fulltrúar norskra stjórnvalda og einn fulltrúi frá Svíþjóð. Fundir hófust með fulltrúum íslenska forsætisráðuneytisins á slaginu klukkan níu í morgun.

Nefndin fer nú eftir hádegi á fundi í fjármálaráðuneytinu, fjármálaeftirlitinu og síðan Seðlabankanum. Fundir halda svo áfram á morgun.

Ekki náðist tal af fundarmönnum í morgun en í gær sagði formaður nefndarinnar, Martin Skancel, frá norska fjármálaráðuneytinu, ekki hægt að segja neitt um tillögur fyrr en búið væri að fá heildarmynd af stöðunni.

Á sama tíma og fundað var með norrænu sendinefndinni settist ein bresk aftur niður til viðræðan um Icesave reikningana í utanríkisráðuneytinu. Fundað var frá morgni til kvölds í gær án niðurstöðu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×