Fótbolti

Stabæk meistari - Veigar með þrennu og Pálmi skoraði

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Veigar Páll fór á kostum með Stabæk í dag.
Veigar Páll fór á kostum með Stabæk í dag. Mynd/Scanpix
Stabæk tryggði sér formlega norska meistaratitilinn í knattspyrnu með 6-2 stórsigri á Vålerenga í næstsíðustu umferð tímabilsins.

Veigar Páll Gunnarsson var í byrjunarliði Stabæk og skoraði þrjú af fyrstu fjórum mörkum liðsins. Hann var svo tekinn af velli á 77. mínútu og Pálmi Rafn Pálmason kom inn á í hans stað.

Pálmi skoraði svo fimmta mark Stabæk á 82. mínútu.

Eina liðið sem átti tölfræðilegan möguleika á að ná Stabæk var Fredrikstad sem vann 2-1 sigur á Molde á útivelli. Garðar Jóhannsson var í byrjunarliði Fredrikstad.

Indriði Sigurðsson og Theodór Elmar Bjarnason voru í byrjunarliði Lyn sem vann 3-0 sigur á Álasundi. Haraldur Freyr Guðmundsson sat á bekknum hjá síðarnefnda liðinu.

Þá gerðu Brann og Tromsö 1-1 jafntefli. Kristján Örn Sigurðsson tók út leikbann en Ólafur Örn Bjarnason og Birkir Már Sævarsson voru í byrjunarliði Brann. Gylfi Einarsson kom inn á sem varamaður í leiknum en Ármann Smári Björnsson sat á bekknum hjá Brann.

Þegar ein umferð er eftir er Stabæk með sex stiga forystu á Fredrikstad. Lyn er í sjöunda sæti með 36 stig og Brann í því áttunda með 30. Álasund er í næstneðsta sæti með 23 stig og á mjög veikan möguleika á því að bjarga sér frá mögulegu falli í B-deildina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×