Innlent

Lögreglustjórar styðja Björn

Lögreglustjórar á Íslandi lýstu í dag yfir stuðningi við dómsmálaráðherra.
Lögreglustjórar á Íslandi lýstu í dag yfir stuðningi við dómsmálaráðherra.

Lögreglustjórafélag Íslands lýsir yfir eindregnum og óskoruðum stuðningi við dómsmálaráðherra og starfsmenn dómsmálaráðuneytis.

Þetta segir í ályktun sem félagið sendi fjölmiðlum í dag vegna umfjöllunar um málefni lögreglunnar á Íslandi.

Þar er stuðningi einnig lýst við embætti ríkislögreglustjóra sem sagt er boðið og búið þegar einstök lögreglustjóraembætti hafa þurft á aðstoð að halda í hvaða formi sem er.

Lögreglustjórafélagið er með þessu að bregðast við umræðum sem spunnist hafa í tengslum við Jóhann R. Benediktsson lögreglustjóra á Suðurnesjum sem lætur að störfum nú um mánaðarmótin. Hann hefur deilt hart á dómsmálaráðherra og ríkislögreglustjóra.

Ályktun Lögreglustjórafélags Íslands í heild sinni er birt hér fyrir neðan.

Lögreglustjórafélag Íslands lýsir yfir eindregnum og óskoruðum stuðningi við dómsmálaráðherra og starfsmenn dómsmálaráðuneytis.

Björn Bjarnason hefur eflt og styrkt lögregluna og réttarvörslukerfið í embættistíð sinni og átt gott og náið samstarf við lögreglustjóra landsins. Sama gildir um starfsmenn ráðuneytisins, sem hafa af ósérhlífni lagt sig fram um að aðstoða stofnanirnar í smáu sem stóru.

Á sama hátt hefur embætti ríkislögreglustjóra verið boðið og búið þegar einstök lögreglustjóraembætti hafa þurft á aðstoð að halda í hvaða formi sem er. Lögreglustjórafélagið harmar því þær illskeyttu og persónulegu árásir sem ráðherra og einstakir starfsmenn lögreglukerfisins hafa þurft að sæta og kallar þess í stað á málefnalegar umræður um starfsemi lögreglunnar og skipulag hennar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×