Viðskipti innlent

JJB í vandræðum

Breska sportvöruverslunarkeðjan JJB Sports, sem er að nær þriðjungshluta í eigu Exista og viðskiptafélaga þeirra, er í vandræðum.

Félagið stendur í stappi við lánadrottna sem vilja hækka vexti á lánum til félagsins og hefur verðmæti hlutar Exista rýrnað um 81prósent frá því í júní á síðasta ári.

Exista keypti ásamt Chris Ronnie, núverandi forstjóra, 29% hlut í JJB Sport í júní á síðasta ári á 190 milljónir punda eða um 24 milljarða króna á gengi þess tíma. Gengi bréfa í fyrirtækinu hefur fallið um 81% síðan þá og er verðmæti hlutar Existu í JJB Sports nú um 36 milljónir punda eða 6,3 milljarðar. Alls hefur því hlutur Exista og Chris Ronnie rýrnað um 17,7 milljarða á 15 mánuðum og er þá tekin með um 30% gengishækkun á pundi á tímabilinu.

JJB Sports tilkynnti fyrir helgi um tap upp á 1,5 milljarð í hálfsársuppgjöri sem náði til 27. júlí. Endurskoðendur fyrirtæksins hafa bent á slæma fjárhagsstöðu og einn af lánadrottnum þess HBOS sá sig knúinn til að hækka vexti á rúmlega 2,5 milljarða láni um þrjú prósentustig. Ástæðan er sú bankinn telur að JJB Sports uppfylli ekki lengur þær kröfur sem gerðar voru í upphaflegum lánssamningi. Þetta mun kosta JJB Sports um 80 milljónir aukalega á ári.

Forráðamenn fyrirtæksins eru þó brattir og sagði Chris Ronnie, forstjóri þess, í samtali við breska fjölmiðla um helgina að JJB Sports ætti bjarta framtíð fyrir sér. Meðal þeirra sem hafa lagt sitt á vogaskálarnar til að hjálpa JJB Sports eru Kaupþing sem lánuðu því 3,5 milljarða á dögunum. Stærstu hluthafar Kaupþings eru Exista.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×