Erlent

Dakar rallinu aflýst vegna hryðjuverkahættu

Óli Tynes skrifar
Svipmynd úr Dakar rallinu.
Svipmynd úr Dakar rallinu. MYND/AP

Dakar rallinu hefur verið aflýst aðeins sólarhring áður en það átti að hefjast. Ástæðan er ótti við hryðjuverk í Máritaníu. Í yfirlýsingu frá stjórnendum keppninnar segir að margt spili þarna inn í.

Fjórir franskir ferðamenn voru myrtir í Máritaníu um jólin. Auk þess segja stjórnendur að þeim hafi borist beinar hótanir frá hryðjuverkasamtökum.

Í gær lýstu frönsk stjórnvöld svo áhyggjum sínum af öryggi keppenda. Því þótti ekki annað fært en að aflýsa keppninni.

Rallið átti að hefjast í Lissabon í Portúgal á morgun, og reiknað var með að keyra yfir landamærin til Máritaníu 11. janúar.

Dakar rallið er það hættulegasta og erfiðasta sem fyrirfinnst í mótorsportinu. Telja má víst að með því af aflýsa því tapist aðskiljanlegar milljónir dollara.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×