Körfubolti

Held að Grindvíkingar séu hræddir við Snæfellinga

Grindvíkingar fóru illa að ráði sínu í lokin á fyrsta leiknum
Grindvíkingar fóru illa að ráði sínu í lokin á fyrsta leiknum Mynd/Víkurfréttir/JónBjörn

Körfuboltasérfræðingurinn Svali Björgvinsson telur Grindvíkinga eiga mjög erfitt verkefni fyrir höndum í Stykkishólmi í kvöld þegar þeir mæta Snæfelli í öðrum leik liðanna í undanúrslitum Iceland Express deildarinnar.

Grindvíkingar fóru illa að ráði sínu í fyrsta leiknum þar sem þeir glutruðu niður forystu á lokasprettinum og töpuðu 97-94. Þeir gulklæddu hafa ekki sótt gull í greipar Hólmara í vetur og Svali á von á erfiðu verkefni fyrir Grindvíkinga og hallast að því að Snæfell fari í úrslitin.

"Grindvíkingar gáfu Snæfellingum sigurinn í fyrsta leiknum, sem er afar óvenjulegt, því þeir eru ekki vanir að vera gjafmildir á heimavelli. Snæfell var að spila frekar illa og óskynsamlega í þessum leik og því má segja að Grindavíkurliðið hafi þar misst af stóra tækifærinu. Með þessari gjöf geta Grindvíkingar farið að bóka sumarfríin sín, þó ég óski þess heitt að þetta einvígi fari í sem flesta leiki," sagði Svali í samtali við Vísi í dag.

"Ég held að Grindvíkingar séu enn að finna taktinn eftir komu Helga Jónasar og Jamaal Williams og það er varasamt að gera breytingar á liðinu svona skömmu fyrir úrslitakeppnina. Ég held að Snæfellingar stýri leiknum betur í kvöld, verði agaðari og passi betur upp á boltann. Grindvíkingar þurfa að fá algjöran toppleik til að vinna sigur í kvöld og fá það besta frá öllum sínum mönnum. Annars held ég að Grindvíkingar séu hræddir við Snæfellinga, ég greindi það í fyrsta leiknum," sagði Svali.

Grindvíkingar bjóða stuðningsmönnum sínum ókeypis rútufar í Hólminn í kvöld svo lengi sem pláss leyfir, en rútan mun fara frá íþróttahúsinu í Grindavík 15:00 í dag.

Leikurinn í Stykkishólmi hefst klukkan 19:15.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×